Stjórnendur og starfsmenn í þriðja geiranum
Frjáls félagasamtök og sjálfseignastofnanir
Samstarfsverkefni Opna háskólans í HR og Almannaheilla, samtaka þriðja geirans.
-
Næsta námskeið
Október 2020
-
Staða
Væntanlegt
-
Lengd
35 klst.
-
Verð
235.000 kr.

Verkefnastjóri
Um námið
Um er að ræða endurbætta námslínu fyrir stjórnendur og starfsfólk innan þriðja geirans.
Það eru ýmsar áskoranir sem felast í að stjórna og starfa innan félaga í þriðja geiranum sem ekki finnast í hagnaðardrifnum fyrirtækjum eða opinberum stofnunum. Til að mynda er fjármögnun með öðrum hætti, viðskiptavinir eru aðrir og það að stýra hópi sjálfboðaliða kallar á annars konar mannauðsstjórnun.
Markmiðið er að þátttakendur öðlist hagnýta þjálfun í stjórnun sem eykur fagmennsku félaganna og trúverðugleika.
Umfjöllun Morgunblaðisins um þriðja geirann 9. maí 2019.
Meðal þess sem er kennt:
- Lagaumhverfi.
- Greining siðferðilegra álitamála og siðareglur.
- Stefnumótun.
- Vinna með sjálfboðaliðum.
- Þjónandi forysta og valddreifing.
- Samningatækni.
- Stjórnun fjármála.
Um þriðja geirann
Hugtakið þriðji geirinn nær yfir starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignastofnana sem starfa í almannaþágu og sinna mikilvægri starfsemi í þjóðfélaginu. Félög og samtök í þriðja geiranum eru jafnframt oft í tengslum við hið opinbera sem álitsgjafar vegna verkefna á sérsviðum viðkomandi samtaka.
Fjölbreytt starfsemi
Dæmi um samtök í þriðja geiranum eru Hjartavernd, Blindrafélagið, Umhyggja, Landvernd, Ungmennafélag Íslands, Geðhjálp, Skógræktarfélag Íslands, Rauði krossinn, SÁÁ, Landsbjörg og Krabbameinsfélagið.
Opni háskólinn í HR og Almannaheill
Námslínan er samstarfsverkefni Opna háskólans í HR og Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, sem vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrir almannaheillasamtök og sjálfseignastofnanir sem starfa í almannaþágu.
Fyrir hverja er námslínan
Námið hentar einstaklingum sem starfa nú þegar fyrir, eða vilja starfa fyrir, frjáls félagasamtök og sjálfseignastofnanir.
Kennsla
Kennarar
Að námslínunni koma margir af færustu sérfræðingum úr háskólaumhverfinu auk samstarfsaðila úr íslensku atvinnulífi sem allir hafa mikla reynslu á sínu sviði.
Kennsluaðferðir
Tímarnir fela í sér bæði hópavinnu og fyrirlestra. Kennsla byggist að miklu leyti á hagnýtum verkefnum sem tengjast störfum innan þriðja geirans hér á landi og erlendis. Einnig er áhersla lögð á persónulega þróun þátttakenda.
Próf og heimavinna
Nemendur þurfa ekki að þreyta próf. Kennarar geta sent þátttakendum lesefni fyrir tíma en reynt er að nýta tímann í kennslu til hins ítrasta.
Skipulag námsins
Námslínan verður kennd eftirfarandi daga:
- 8. október 2019 kl 9-16
- 22. október 2019 kl 9-16
- 5. nóvember 2019 kl 9-16
- 19. nóvember 2019 kl 9-16
- 3. desember 2019 kl 9-16
Námið er 35 klst. Kennt er á þriðjudögum kl. 9-16. Námið hefst í október og lýkur í desember.
Lotur
Frjáls félagasamtök, stjórnarhættir og réttarumhverfi
Í námskeiðinu verða frjáls félagasamtök, sjálfseignarstofnanir og sjóðir skilgreind og fjallað um sérstöðu þeirra. Fjallað verður um hlutverk, umfang og þróun þessa sviðs á Íslandi. Gerð verður grein fyrir íslenskum lögum og reglum sem gilda um félagasamtök. Einnig verður kynnt frumvarp til laga um almannaheillasamtök. Stjórnskipulag og skipulagsform félaga verða tekin til umfjöllunar. Sérstök áhersla verður á hlutverk og val stjórna í félögum, samstarf, verkaskiptingu milli stjórnar, framkvæmdastjóra og starfsfólks og fagleg vinnubrögð við skipulag stjórnarfunda.
Efnið verður tengt raunhæfum dæmum og verkefnavinnu.
Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:
- Hafi aukna þekkingu á umhverfi og sérstöðu frjálsra félagasamtaka og sjálfseignastofnana.
- Hafi fengið umfjöllun um stjórnskipulag og skipulagsform félaga.
- Hafi aukna þekkingu á hlutverki og val stjórna í félög.
- Hafi betri yfirsýn yfir íslensk lög og reglur um félagasamtök
Leiðbeinendur: Dr. Steinunn Hrafnsdóttir og Hildur Tryggvadóttir Flóvenz
Siðferði við stjórnun almannaheillasamtaka
Almannaheillasamtök hafa flest hver skýr samfélagsleg hlutverk. Þau hafa gjarnan sérfræðiþekkingu sem veitir þeim vægi og vald á sínu sviði og byggja oft tilveru sína á trausti frá almenningi, félagsmönnum sínum, yfirvöldum og öðrum hagaðilum. Við það bætist að almannaheillasamtök eru rekin af hugsjón og markmiðum án hagnaðarsjónarmiða en eru þó oft að sýsla með fjármuni, gæði og hagsmuni sem eftirsóknarverðir eru. Slíku hlutverki fylgir mikil siðferðileg ábyrgð gagnvart hagaðilum. Siðferðileg álitamál geta komið upp hjá almannaheillasamtökum sem snerta hagsmunaárekstra, umboðsvandann og þegar verðugar hugsjónir blinda fólki sýn og tilgangurinn helgar meðalið. Í þessum hluta fjöllum við um siðferðilegan grundvöll almannaheillasamtaka, siðferðileg álitamál sem geta komið upp í starfi þeirra og mikilvægi þess að auk tæknilegrar fagþekkingar sé til staðar virk siðfræðileg menning og umræðuhefð um þau álitamál sem upp koma í starfinu. Sérstök áhersla verður á leiðir til að greina álitamál og hagnýt tól, eins og ákvarðanalíkön og siðareglur, til að almannaheillafélög geti leyst þau á farsælan máta.
Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:
- Hafi aukna þekkingu á siðfræðihugtökum og algengum siðferðilegum áskorunum í starfi almannaheillasamtaka.
- Hafi öðlast leikni í að greina siðferðileg álitamál og leysa þau með aðferðum siðfræðinnar.
-
Hafi betri yfirsýn og færni til að móta sér heildstæða skoðun á siðferðilegu hlutverki almannaheillasamtaka og skapa menningu þar sem mikilvæg siðferðileg málefni eru rædd og leitast er við að finna lausnir á siðferðilegum áskorunum.
Leiðbeinandi: Ketill Berg Magnússon, MA og MBA
Forysta og stjórnun í þriðja geiranum
Forysta er ekki sjálfgefinn hluti af starfsheiti eða formlegri stöðu. Forysta er meðvitað val um að vinna með fólki þannig að það upplifi eigin styrkleika og hafi kjarkinn og þrautseigjuna til að þjóna markmiðum heildarinnar.
Á námskeiðinu verður fjallað um lykilatriði árangursríkrar og þjónandi forystu. Meðal viðfangsefna verða mikilvægi verkefna- og valddreifingar, góðrar samvinnu, virkrar hlustunar, góðs liðsanda og starfsánægju og hvernig leiðtoginn fær starfsfólk með sér í lið.
Einnig verður farið í áherslur í stjórnun og skipulagningu starfa sjálfboðaliða og þær sértæku áskoranir mannauðsstjórnunar og starfsmannastefna þegar unnið er með sjálfboðaliðum, nýliðun þeirra og þjálfun. Fjallað verður um hvað hafa beri í hug varðandi samspil og samstarf sjálfboðaliða og starfsmanna.
Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:
- Hafi eflt leiðtogahæfileika sína
- Hafi betri þekkingu á eigin styrkleikum og tækifærum til umbóta
- Geti betur dreift verkefnum og valdi
- Hafi aukna þekkingu á því hvernig megi stuðla að góðum starfsanda
- Þekki fýsilegar áherslur í stjórnun og skipulagningu starfa sjálfboðaliða
- Þekki hvað þarf að hafa í huga varðandi samspil og samstarf sjálfboðaliða og starfsmanna
- Hafi kynnst mannauðsstjórnun og starfsmannastefna
- Þekki leiðir og áherslur í tenglsum við nýliðun og þjálfun sjálfboðaliða starfsmanna
- Þekki hvernig meta megi störf og umbuna vegn verkefna
Leiðbeinendur: Sigurður Ragnarsson og Kristján Sturluson
Fjármálastjórnun, fjáraflanir og samningatækni
Farið verður í gegnum helstu þætti sem hafa þarf í huga við rekstur lítilla og meðalstórra félaga.
Meðal þess sem tekið verður til umfjöllunar er samband markaðsmála og fjármagn. Gerð kostnaðargreininga, rýniferla og fjárhagslegt eftirlits.
Farið verður yfir lykilþætti fjármála- og rekstrarstjórnunar í samhengi við áætlanagerð. Á námskeiðinu verður jafnframt fjallað um styrkumsóknir og fjáraflanir.
Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:
- Aukin þekking á rekstri og fjármálum félagasamtaka.
-
Betri skilningur á áætlanagerð og tengslum hennar við dagleg störf.
-
Skilningur á mikilvægi innra eftirlits og skilvirkra ferla í rekstri og stjórnun.
-
Skilji samhengi allra þeirra þátta sem mynda fyrirtækjaheild/félagsheild.
-
Betri þekking á samningum og tengsl þeirra við félagið og rekstur þess.
-
Öðlist betri þekkingu á eðli og breytilegu umfangi fjáraflana í ljósi stefnu félagsins.
Leiðbeinandi: Þóra Þórarinsdóttir, Framkvæmdastjóri Áss styrktarfélags
Stefnumótun almannaheillasamtaka
Öllum starfseiningum, og þar á meðal félagasamtökum og almannaheillasamtökum, er nauðsynlegt að hafa skýra sýn á tilganginn fyrir tilvist sinni og hvernig nýta eigi og samþætta starfsemina þeim tilgangi til mestrar framþróunar. Kjarni námskeiðsins felst í því að kynnast af hverju stefnumótun er mikilvæg, hvað felst í stefnu og hvernig farið er að því að móta hana. Áhersla verður á hagnýta nálgun og skýra tengingu við starfsumhverfi félagasamtaka. Nemendur fá tækifæri til að vinna að verkefnum fyrir sína starfsemi.
Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:
- Skilji tilgang og mikilvægi stefnumótunar.
- Skilji hvað felst í stefnumótun og þekki helstu hugtök því tengt.
- Þekki til verklags við mótun stefnu.
- Hafi spreytt sig á mótun stefnu.
Að námi loknu
Markmiðið með náminu er að þátttakendur öðlist hagnýta þjálfun í stjórnun sem eykur fagmennsku og trúverðugleika.
Nemendur fá staðfestingu á að hafa lokið námslínunni.
Hagnýtar upplýsingar
- Innifalið í verði eru öll námskeiðsgögn.
- Þátttakendur fá láttan hádegisverð og kaffiveitingar á námskeiðsdögum.
Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn.
Samstarfsaðilar