Mannauðsstjórnun og leiðtogafærni
Nám sem þjálfar þátttakendur í mannauðsstjórnun í öllum sínum fjölbreytileika.
-
Næsta námskeið
6. september 2022
kl. 09.00 - 16.00 -
Staða
Skráning hafin
-
Lengd
56 klst
-
Verð
535.000 kr.

Verkefnastjóri
Um námið
Það er allra hagur að starfsmönnum líði vel í vinnunni, að þeir viti að hverju þeir stefna og finnist þeir geta leitað til yfirmanna sinna með ýmis úrlausnarefni á vinnustaðnum. Mannauðsstjórnun tekur til þessara þátta en um leið svo miklu fleiri - eins og jafnréttis á vinnustað, liðsanda, leiðtogahæfni og lagaumhverfis. Þróun og efling mannauðs er mikilvægt verkefni í hvaða fyrirtæki sem er og að þessu námi loknu hafa þátttakendur hlotið þjálfun í notkun mismunandi aðferða til að ná því markmiði.
Meðal þess sem er kennt:
- Leiðir til að auka sköpunargleði og bæta frammistöðu starfsmanna.
- Lagalegar hliðar ráðninga og uppsagna.
- Frammistöðustjórnun og frammistöðumælingar
- Þjónandi forysta.
- Aðferðir til að auka jafnrétti á vinnustaðnum.
- Aðferðir til að efla liðsheild.
- Markþjálfun
Helgi Héðinsson, sálfræðingur.
Um mannauðsstjórnun
Verðmæti fyrirtækja og stofnana velta ekki hvað síst á mannauðnum sem þar starfar hverju sinni. Sýnt hefur verið fram á að skilvirk og stefnumiðuð mannauðsstjórnun skilar sér í bættum rekstri og frammistöðu skipulagsheilda og meiri ánægju starfsmanna.
Fyrir hverja er námslínan?
Námið er opið öllum en hentar sérstaklega vel fyrir þá sem hafa áhuga á að geta betur tekist á við verkefni sem tengjast mannauði. Ekki er krafist ákveðinnar reynslu eða sérstakrar menntunar.
Kennsla
Um kennslu í námslínunni sjá níu færir sérfræðingar; stjórnendaráðgjafar og mannauðsstjórar, rannsakendur, lögmenn og framkvæmdastjórar. Námið byggist á fjölbreyttum kennsluaðferðum og hagnýtum verkefnum.
Próf og heimavinna
Þátttakendur þreyta ekki próf og þeim er ekki sett fyrir heimavinna. Þeir geta þó þurft að lesa stutt raundæmi (e. case) eða sambærilegt fyrir upphaf einhverra lota.
Skipulag námsins
Námið er 56 klst. Kennt er á þriðjudögum, aðra hverja viku, kl. 9-16 frá september til desember.
Námið er einungis kennt einu sinni á ári, að hausti.
Lotur
Stefnumiðuð mannauðsstjórnun
Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:
- Hafi öðlast innsýn í það hvernig stefna og skipulag hafa áhrif á árangur starfsfólks.
- Þekki til lykilþátta sem stuðla að starfsánægju, helgun og hollustu.
- Hafi kynnst því hvernig samskipti einstaklinga, viðhorf og hegðun hafa áhrif á það hvernig verkefni vinnast, ákvarðanir eru teknar og þær framkvæmdar.
Ráðningar, starfsþróun og jafnrétti á vinnustað
Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:
- Þekki áhrif jafnréttis á vinnuumhverfi og árangur fyrirtækja.
- Hafi öðlast færni í að greina ómeðvituð viðhorf sem stutt geta við mismunun kynja í ráðningum, starfsþróun og frammistöðuviðmiðun.
- Geti sett fram hugmyndir um aðgerðir til að stuðla að auknu kynjajafnrétti á sínum vinnustað.
Leiðbeinandi: Arabella Samúelsdóttir
Frammistöðustjórnun, hvatning og endurgjöf
Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:
- Þekki lykilhlutverk stjórnandans.
- Hafi kynnst grundvallarhugmyndum frammistöðustjórnunar og helstu aðferðum við frammistöðumælingar.
- Hafi aukið hæfni sína til að veita endurgjöf.
- Hafi öðlast innsýn í lykilþætti til árangurs einstaklinga, liðsheilda og skipulagsheilda.
Leiðbeinandi: Dr. Auður Arna Arnardóttir, dósent og forstöðumaður MBA í HR
Vinnuréttur
Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:
- Hafi fengið lögfræðilega úttekt á réttindum og skyldum varðandi ráðningar og starfslok.
- Þekki þá lögfræðilegu þætti sem hafa ber í huga við ráðningu starfsmanna og gerð ráðningarsamninga.
- Þekki lagalegar hliðar er snúa að uppsögnum starfsmanna.
Leiðbeinendur: Einar Örn Davíðsson, hdl. og sjálfstætt starfandi lögmaður
Stjórnandinn í hlutverki markþjálfans
Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:
- Hafi kynnst aðferðafræði markþjálfunar og hversu áhrifarík hún er í stjórnenda- og leiðtogaþjálfun
- Geti sannreynt og nýtt sér skilvirkar aðferðir við einkaráðgjöf
- Geti tileinkað sér leiðir til að auka sköpunargleði og efla samskipti og frammistöðu einstaklinga og hópa
Leiðbeinandi: Guðrún Högnadóttir, MHA, framkvæmdastjóri FranklinCovey á Íslandi
Sáttamiðlun
Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:
- Hafi aukið færni sína í samskiptum.
- Lært að beita skapandi hugsun við úrlausn ágreiningsmála
- Hafi öðlast hæfni til að greina raunverulega ástæðu deilumála
Leiðbeinandi: Elmar Hallgríms Hallgrímsson, ráðgjafi.
Þjónandi forysta og jafnlaunavottun
Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:
- Hafi kynnst hugmyndafræði og viðmiðum þjónandi forystu.
- Hafi kynnst samspili þjónandi forystu og mannauðsstjórnunar.
- Hafi fengið æfingu og innsýn í hagnýtingu þjónandi forystu í lífi og starfi.
-
Þekki til grunnatriða ÍST85/2012 jafnlaunastaðalsins
-
Þekki til þess lagaumhverfis sem tengist jafnlaunakerfinu.
-
Hafi öðlast þekkingu á þeim atriðum sem hafa þarf í huga við gerð jafnlaunaviðmiða.
-
Hafi yfirsýn yfir þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja/stofnana fyrir innleiðingu og vottun jafnlaunakerfis.
Leiðbeinandi: Sigurður Ragnarsson, MBA, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri og framkvæmdastjóri Forystu og samskipta. og Elín Greta Stefánsdóttir, mannauðsstjóri Verkís.
Jákvæð stjórnun og teymisvinna
Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:
- Þekki einkenni árangursríkra liðsheilda og geti nýtt sér þá þekkingu í starfi.
- Hafi kynnst aðferðum sem nota má til þess að efla liðsheild á sínum vinnustöðum.
- Þekki tengslin milli liðsheildar og starfsánægju og geti nýtt sér aðferðir til þess að ná fram hvoru tveggja, góðri liðsheild og starfsánægju.
Leiðbeinandi: Lára Kristín Skúladóttir, stjórnunarráðgjafi og markþjálfi
Að námi loknu
Þátttakendur fá staðfestingu á að hafa lokið námslínunni. Ekki fást einingar fyrir námslínuna.
Hagnýtar upplýsingar
Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn. Opni háskólinn hvetur þig til að kynna þér möguleikana.