Tækni|Lengri námskeið

APME verkefnastjórnun

Applied Project Management Expert

Hagnýtt fjarnám í verkefnastjórnun sem hentar vel samhliða vinnu.

 • Næsta námskeið

  10. september 2022

 • Staða

  Skráning hafin

 • Lengd

  Fjarnám

 • Verð

  640.000 kr.

Verkefna­stjóri

Björg Rún Óskarsdóttir

bjorgrun@ru.is

599 6300

Um námið

Með því að ljúka námslínu í APME verkefnastjórnun bæta þátttakendur skipulag og utanumhald verkefna, verða betur í stakk búnir til að taka erfiðar ákvarðanir, jafnvel undir álagi, og efla sig sem leiðtoga. Náminu lýkur með alþjóðlegri vottun. 

Meðal þess sem kennt er:

 • Helstu aðferðir til að taka bestu mögulegu ákvörðun.
 • Þjónandi forysta og leiðtogafræði.
 • Markmiðasetning í verkefnum og eftirlitskerfi.
 • Uppbygging stefnumiðaðra gæðakerfa, aðfangastjórnun, birgðastýring og framleiðslubestun.
 • Gerð verkáætlana og kostnaðarútreikninga.
 • Tölfræði, notkun og greining líkana.
 • Helstu tæki og tól eins og Excel, MS Project, MindManager og Crystal Ball.

 


Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, framkvæmdatjóri Atlantik Legal Services.

Alþjóðleg vottun

Í lok náms þreyta nemendur próf sem veitir þeim alþjóðlega IPMA vottun samkvæmt stigi D sem er staðfesting á þekkingu á sviði aðferðafræði verkefnastjórnunar.

Staðfesting á námsárangri

Við lok námsbrautar fá nemendur afhent prófskírteini og staðfestingu á námsárangri. Nemendur þurfa að hafa lokið öllum námskeiðum með lágmarkseinkunn.

Um verkefnastjórnun

Ávinningur af faglegri verkefnastjórnun er mikill en aðferðafræðin nýtur sífellt meiri vinsælda í atvinnulífinu. Auk þess að nýtast við utanumhald verkefna eru aðferðir verkefnastjórnunar notaðar í þróun vöru og þjónustu og breytingastjórnun. 

Fyrir hverja er námið?

Námið hentar þeim sem vilja nota alþjóðlega viðurkennda aðferðarfæði verkefnastjórnar í störfum sínum.

Kennsla

Kennarar koma úr verkfræðideild Háskólans í Reykjavík eða eru sjálfstæðir ráðgjafar og sérfræðingar í stjórnun.

Skipulag náms

 • APME verkefnastjórnun er fjarnám en staðarlotur eru haldnar í Reykjavík að jafnaði tvisvar sinnum fyrir hvert námskeið. Í staðarlotum er kennt kl. 9-15.
 • Námslínan samanstendur af fimm námskeiðum eru kennd í sex vikna lotum og lýkur með prófi eða verkefni. 
 • Kennsla hefst í september og lýkur með alþjóðlegu vottunarprófi í maí.
 • Hljóðfyrirlestrar eru settir inn á sameiginlegt vefsvæði nemenda á þriðjudögum og fimmtudögum.

Lotur

Lota 1/5

Upplýsingatækni

Leiðbeinandi: Eðvald Möller

Á námskeiðinu verður farið í helstu forrit sem nýtast í verkefnastjórnun.

 • Word

Nemendur læra að nota Word sem umbrotsforrit t.d. setja upp bók eða skýrslu með sjálfvirku efnisyfirliti, myndaskrá, töfluskrá, aðriðaorðaskrá, heimildarskrá o.s.frv.

 • Excel

Nemendur læra að hámarka afköst sín við meðhöndlun talna og gagna. Skoðuð verða mismunandi föll í Excel eins og dagsetningaföll, textaföll og viðskiptaföll. Þá læra nemendur á Scenario manager í Excel sem hjálpartæki við greiningu gagna. Auk þess verður farið í hvernig Excel tengist við önnur kerfi og sjálfvirka uppfærslu með fjölva (macro), PivotTable og fjármálföll. 

Námskeiðið er fyrir byrjendur sem og lengra komna og er ekki krafist þekkingar á Excel.

 • MS Project

Farið verður í helstu grunnþætti MS Project sem er öflugt verkfæri til að halda utan um alla þætti verkefnastjórnunar og miðlun upplýsinga í tíma. Einnig verður farið í hvernig fylgja á eftir verkefnum með markvissu eftirliti og framvindumælingum sem og hvernig ná má í skýrslur og útbúa skýrslugerð og aðra þætti forritsins til miðlunar upplýsinga. Markmiðið er að nemendur geti sett upp eindalda áætlun með MS Project í verkefnum við skipulag og uppsetningu óháð stærð og flækjustigi verkefnis. 

 • MindManager

Nemendur læra að nota MindManager við vinnu sína, en MindManager er hugbúnaður sem byggir á hugkortum. Hugbúnaðurinn getur auðveldað fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum við stefnumótun og að sjá stóru myndina með handhægari hætti. MindManager getur aukið yfirsýnina og bætt þar með framleiðni fyrirtækja og einstaklinga.

Kennsluaðferð 
Kennt í fjarnámi með hljóðfyrirlestrum, verkefnavinnu og umræðuþráðum.

Lota 2/5

Framleiðsla og gæðastjórnun

Leiðbeinandi: Hlynur Stefánsson

Á þessu námskeiðið læra nemendur að greina framleiðsluferli með að leiðarljósi að það verði sem hagkvæmast og tryggi viðskiptavinum umsamin gæði.

Nemendur læra að byggja upp stefnumiðað gæðakerfi og verður einkum horft til ISO-9000 staðlaraðarinnar. 

Nemendur læra að semja verklagsreglur, gera flæðirit og byggja upp tölfræðilega gæðastýringu. Þá verður kennd framleiðslustjórnun þar sem kennd er aðfangastjórnun, birgðastýring, gerð framleiðsluspáa og framleiðslubestun.

Kennsluaðferðir 
Kennt í fjarnámi. Hljóðfyrirlestrar, verkefnavinna, umræðuþræðir og staðarlota.

Lota 3/5

Forysta og samskipti - leiðtogafræði

Leiðbeinandi: Sigurður Ragnarsson

Á þessu námskeiði er fjallað um forystu út frá ýmsum þáttum. Helstu hugtök og kenningar leiðtogafræðanna verða skoðaðar ásamt nýjustu stefnum og straumum í leiðtogafræðunum eins og siðferðilegri, - þjónandi- og sannri forystu. 

Nemendur fá tækifæri til að skoða og þróa þekkingu sína og skilning á leiðtogahlutverkinu. Fleiri lykilatriði eru tekin fyrir eins og forysta í teymum, ólíkir leiðtogastílar, árangursrík samskipti o.fl. Námskeiðið veitir fræðilega og praktíska innsýn og þekkingu á hugtakinu árangursrík forysta. 

Eftir námskeiðið eiga nemendur að búa yfir þekkingu, hæfni og færni á árangursríkri forystu og getað nýtt sér þær aðferðir.

Kennsluaðferðir 
Hljóðfyrirlestrar, verkefnavinna, umræðuþræðir og staðarlota í upphafi námskeiðs.

Lesefni 
Forysta og samskipti - Leiðtogafræði. Höf: Sigurður Ragnarsson. Útgáfuár: 2011. 

Hugtakalykill (kafli 4), PDF skjal sem nemendur fá aðgang að. Útg: Verkefnastjórnunarfélag Íslands.

Lota 4/5

Aðferðir við ákvörðunartöku

Leiðbeinandi: Hlynur Stefánsson

Nemendur læra grunnatriði tölfræðinnar s.s. að reikna meðaltöl og frávik. Þá læra þeir um tilgang notkunar tölfræðilegra reikninga við ákvörðunartöku, hvernig ákvörðunartré eru byggð upp og óvissa reiknuð til fjár. 

Einnig læra nemendur að byggja upp ákvörðunarlíkön og hvernig áhætta er minnkuð í verkefnum og fjármálagjörningum. Þá verður farið yfir hvernig ofmat/vanmat á mannlegum þáttum getur skipt máli við ákvarðantöku til dæmis í Excel og Crystal Ball.

Helsta markmið námskeiðsins er að kenna nemendum aðferðir til að taka bestu mögulegu ákvörðun þegar óvissa ríkir um niðurstöðuna.

Kennsluaðferð:
Hljóðfyrirlestrar, verkefnavinna, staðarlota og umræðuþræðir.

Lesefni:
Ítarefni frá kennara. 

Bendum á bókina: Áhætta, ákvarðanir og óvissa (JPV) – eftir Þórð Víking Friðgeirsson.

Lota 5/5

Áætlanir í verkefnum

Leiðbeinandi: Páll Jensson

Nemendur læra að undirbúa og áætla verkefni og setja fram tölusett markmið um áfanga og árangur, bæði hvað varðar tíma og kostnað. Nemendur munu læra að gera tíma- og kostnaðaráætlanir og hvernig þessar áætlanir eru tengdar saman í heildstæða verkefnisáætlun.

Áhersla verður lögð á óvissuþætti í verkefnum og hvernig gera skuli áætlanir þegar áhætta er mikil. Kennd verður notkun þriggja punkta mats bæði á tímalengdum verkþátta og á kostnaðarþáttum, og farið í aðferðir við áhættumat.

Þá verður fjallað um eftirlitskerfi til að mæla mismun á raunverulegum tölum og áætluðum tölum. Loks munu nemendur læra að ljúka verkefnum og gera þau upp þannig að læra megi af mistökum og festa góðan árangur í sessi.

Að loknu námskeiðinu verður nemandinn með vandaða grundvallarþekkingu á beitingu aðferðum verkefnastjórnunar við að undirbúa, skipuleggja, framkvæma og ljúka meðalstórri eða stærri framkvæmd.

Lesefni 
Project Management. Höf: Gray and Larson. Útgáfa: 5 . Útgáfuár: 2010. 

Hugtakalykill (kafli 4), PDF skjal sem nemendur fá aðgang að. Útg: Verkefnastjórnunarfélag Íslands.

Kennsluáætlun:

Vinnuframlag

Á bakvið hvert námskeið liggja u.þ.b. 120-180 klukkustundir í vinnuframlagi. Við mat á vinnuframlagi er áætluð tímasókn í staðarlotum, undirbúningur fyrir heimavinnu, hlustun á hljóðglærur, próftaka, prófundirbúningur og verkefnavinna. 

Inntökuskilyrði

Stúdentspróf, sambærileg menntun og haldbær reynsla af vinnumarkaði. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi njóta forgangs í námið. Lágmarksaldur nemenda er 25 ár.

Nauðsynleg fylgigögn

 • Staðfest afrit prófskírteina verða að fylgja umsókn svo að hún sé tekin gild.
 • Meðmælabréf (kostur en ekki skylda).
 • Á rafrænu umsóknareyðublaði þarf jafnframt að tilgreina hvers vegna umsækjandi óskar eftir inngöngu.

Fylgigögnum umsókna er hægt að skila rafrænt með umsókn eða beint til verkefnastjóra námsins.

Hagnýtar upplýsingar

Innifalið í verði

 • Námskeiðsgögn frá leiðbeinendum, það er, hljóðglærur og annað efni.
 • Alþjóðlegt vottunarpróf á vegum IPMA (International Project Management Association).
 • Léttur hádegisverður í staðarlotum.

Bækur sem stuðst við í náminu eru ekki innifaldar í verði námsins.

Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn. Opni háskólinn hvetur þig til að kynna þér þína möguleika.

Hér koma leiðbeinendur

Leiðbeinendur

Dr. Eðvald Möller

Lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Hlynur Stefánsson

Lektor í rekstrarverkfræði við tækni og verkfræðideild

Sigurður Ragnarsson

Aðjúnkt við Háskólann á Akureyri og framkvæmdastjóri Forystu og samskipta.

Páll Jensson

Prófessor í rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík og sviðsstjóri á fjármála- og rekstrarverkfræðisviði.

Umsagnir

APME Verkefnastjórnun

„Í náminu hef ég lært góðar aðferðir við að skipuleggja og halda utan um verkefni. Þekkingin úr náminu hefur líka nýst mér þegar ég þarf að taka erfiðar ákvarðanir sem gerir mér auðveldara að leysa úr margs konar vandamálum sem upp geta komið.“

Óttar Kristinn Bjarnason, sérfræðingur á skipulags- og þjónustusviði ISS


Fleiri námskeið

Ferla- og gæðastjórnun

 • Hefst: 28. apríl 2022
 • Lengd: 28 klst.
 • Verð: 264.000
 • Áherslur undir lengri námskeið
 • |
 • Skráning hafin

Fjármál og rekstur fyrirtækja

 • Hefst: Haust 2022
 • Lengd: 28 klst
 • Verð: 274.000 kr.
 • Lengri námskeið
 • |
 • Væntanlegt