Viðskipti|Lengri námskeið

Ábyrgð og árangur stjórnarmanna

Markmið námslínunnar er að efla faglegan grunn stjórnarmanna m.a. með þjálfun á sviði lagalegra, fjárhagslegra og siðferðilegra viðfangsefna.

 • Næsta námskeið

  2. febrúar 2022

 • Staða

  Skráning hafin

 • Lengd

  30 klst.

 • Umsóknar­frestur

  26. janúar 2022

 • Verð

  297.000 kr.

Verkefna­stjóri

Sandra Kr. Ólafsdóttir

Um námið

Einstaklingar sem sitja í stjórnum verða að kunna skil á góðum stjórnarháttum enda fylgir stjórnarsetu mikil ábyrgð. Þátttakendur í námslínunni læra um hlutverk stjórna út frá rekstri, lögum, teymisvinnu, siðfræði, samfélagsábyrgð og mörgum öðrum þáttum.

Þessi þekking gerir þá einstaklega vel í stakk búna til að sinna stjórnarsetu af fagmennsku.


Sesselía Birgisdóttir framkvæmdastjóri Þjónustu- og markaðssviðs Íslandspósts.

Meðal þess sem fjallað er um:

 • Árangursríka stjórnarfundi og afmörkun starfsheimilda
 • Skráning félaga á verðbréfamarkað
 • Samskipti við hluthafa
 • Verkaskiptingu milli hluthafafundar, stjórnar og framkvæmdastjóra
 • Áhættustýringu
 • Hlutverk stefnumótunar
 • Réttarheimilidir og lagalega ábyrgð stjórna
 • Innleiðingu ábyrgra starfshátta
 • Lykilþætti árangursríkrar teymisvinnu

Um stjórnir

Vitundarvakning um góða stjórnarhætti hefur aukist á undanförnum árum. Stjórn félags fer með æðsta vald þess á milli hluthafafunda og sér til þess að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn skal jafnframt stuðla að viðgangi félags og langtímaárangri og hafa eftirlit með daglegum rekstri þess.

Fyrir hverja er námskeiðið?

Námið er kjörið fyrir stjórnarmenn fyrirtækja, stofnana og eftirlitsskyldra aðila samkvæmt skilyrðum Fjármálaeftirlitsins sem og þeim sem hyggjast gefa kost á sér til stjórnarsetu.

Kennsla

Kennarar í námslínunni eru sjö talsins, hvert og eitt með sína sérfræðiþekkingu á mikilvægum þáttum tengdum stjórnarsetu. Þau eru ráðgjafar, endurskoðendur, mannauðsstjórar og viðskiptasiðfræðingar, rannsakendur og lögmenn. Í einstaka lotum koma jafnframt gestafyrirlesarar.

Próf og heimavinna

Nemendur þurfa ekki að þreyta próf og þeim er ekki sett fyrir heimavinna.

Skipulag námsins

Námslínan er alls 30 klukkustundir. Kennt er í átta námslotum, frá kl. 9 til 12 eða 15.

Kennt er á eftirfarandi miðvikudögum:

 • Miðvikudagur 2. febrúar frá kl. 9:00 - 12:00. Grundvallaratriðin – Handbók stjórnarmanna. Leiðbeinandi: Berglind Ósk Guðmundsdóttir 
 • Miðvikudagur 9. febrúar frá kl. 9:00 - 12:00.

  Stefnumótun og ábyrgir stjórnarhættir. Leiðbeinandi: Þröstur Olaf Sigurjónsson

 • Miðvikudagur 16. febrúar frá kl. 9:00-12:00. Hlutverk og verklag stjórna.Leiðbeinandi: Þóranna Jónsdóttir

 • Miðvikudagur 23. febrúar mars frá kl. 9:00 - 15:00. Fjárhagsleg viðfangsefni stjórna. Leiðbeinandi: Almar Guðmundsson
 • Miðvikudagur 2. mars frá kl. 9:00-12:00. Viðskiptasiðfræð og Samfélagsleg ábyrgð. Leiðbeinandi: Ketill Berg Magnússon
 • Miðvikudagur 9. mars frá kl. 9:00-12:00. Endurskoðun og áhættustýring. Leiðbeinandi: Helga Harðardóttir
 • Miðvikudagur 16. mars frá kl. 9:00-15:00. Lagaleg viðfangsefni stjórna.
  Leiðbeinandi: Magnús Hrafn Magnússon
 • Miðvikudagur 23. mars frá kl. 9:00-12:00. Verklag og teymisvinna – Stjórnin sem hópur. Leiðbeinandi: Þóranna Jónsdóttir

Kennsluáætlun vor 2022

 

Lotur

Lota 1/8

Grundvallaratriðin - Handbók stjórnarmanna

Almenn umfjöllun um hlutverk, ábyrgð og störf stjórna. Fjallað verður um viðfangsefnið út frá íslenskum lögum og Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Meðal umfjöllunarefnis er hlutverk og ábyrgð stjórnarmanna og stjórnarinnar í heild, árangursríkir stjórnarfundir og afmörkun starfsheimilda. Ennfremur er fjallað um: Atriði sem þarf að huga að áður en einstaklingur tekur að sér stjórnarsetu, framkvæmdastjóra, undirnefndir stjórna, innra eftirlit og áhættustýringu, hluthafafundi og ársreikning. Þá er einnig tæpt á stefnumótunarhlutverki stjórna og viðskiptasiðferði.

Sérstaklega verður farið yfir efni og notagildi Handbókar stjórnarmanna.

Leiðbeinandi: Berglind Ósk Guðmundsdóttir

Lota 2/8

Hlutverk og verklag stjórna

Þessi hluti tekur á ýmsum viðmiðum og kenningum varðandi hlutverk stjórnarinnar og hvernig mismunandi sjónarmið og samhengi hafa áhrif á hvernig stjórn beiti sér. Valdmörk og verkaskipting milli hluthafafundar, stjórnar og framkvæmdastjóra verða skoðuð sérstaklega.  

Þá verða nokkrir þættir er varða leiðbeiningar um góða stjórnarhætti teknir til umfjöllunar, sér í lagi þættir er varða samskipti við hluthafa, óhæði stjórnarmanna og tilgang undirnefnda. Einnig verður farið yfir praktíska þætti er varða vinnuumhverfi stjórnarinnar, svo sem starfsreglur, stjórnháttayfirlýsingar, upplýsingastreymi og árangursmat.

Leiðbeinandi: Þóranna Jónsdóttir

Lota 3/8

Stefnumótun og ábyrgir stjórnarhættir

Hlutverk stjórnarmanna er bæði að sinna stefnumörkun fyrir það fyrirtæki sem þeir sitja í stjórn hjá og að gegna eftirlitshluverki með framkvæmd hennar. 

Í þessu námskeiði verður fjallað um það með hvaða hætti stjórnarmenn geta stutt við þessi hlutverk sín, annars vegar út frá vinnu við stefnumótun og hins vegar í gegnum eftirliti með framkvæmd stefnu. Farið verður yfir hlutverk stefnumótunar við samþættingar ólíkra sviða rekstrar og búa þannig heildina undir óvissa framtíð. 

Kjarni námskeiðsins felst í því að kynna aðferðarfræði stefnumótunar og verkfæri hennar til að auðvelda stjórnarmönnum vinnu við mótun stefnu. Áhersla er á hagnýta nálgun, bæði hvað fyrirlestra, dæmisögur og verkefni varðar. Þátttakendur fá tækifæri til að vinna að verkefnum fyrir sína stjórnarsetu.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Skilji hlutverk stjórnar hvað stefnumótun varðar og eftirlit með innleiðingu hennar,
 • Hafi fengið kynningu á helstu viðfangsefnum stjórnar hvað stefnumótun varðar,
 • Þekki til mikilvægra greiningartækja við stefnumótun,
 • Geti beitt viðeigandi tækjum og tólum vegna slíkrar greiningarvinnu,
 • Hafi spreytt sig á nokkrum af þeim aðferðum sem kynntar verða.
Leiðbeinandi: Þröstur Olaf Sigurjónsson
Lota 4/8

Fjárhagsleg viðfangsefni stjórnar

Í þessum hluta er markmiðið að veita innsýn inn í fjárhagsleg viðfangsefni stjórna, m.a. það sem tengist greiningu og túlkun ársreikninga, innri og ytri upplýsingagjöf, verðmati fyrirtækja og skráningu á markað.

Greining og túlkun ársreikninga er nauðsynlegur þáttur af stjórnarstörfum. Í lotunni er lögð áhersla á að nálgast efnið út frá praktískum dæmum í stað fræðilegrar umfjöllunar. Ársreikningur skráðs fyrirtækis er tekinn fyrir og helstu atriðum velt upp.

Mikilvægi vandaðra fjárhagsupplýsinga verður til umfjöllunar og hvernig hægt er að nýta þær til að byggja upp gott mælaborð fyrir stjórn sem inniheldur innra mat á stöðu og þróun fyrirtækis/rekstrareiningar. 

Ábyrgð stjórnarmanna á málefnum er varða verðmat fyrirtækja er skýr, hvort sem um er að ræða fyrirtæki sem skráð eru á markaði eða ekki. Verðmat skiptir máli þegar kemur að hlutafjáraukningu, samruna eða yfirtöku, einnig sölu á deild eða starfseiningu frá fyrirtækinu. Í þessum tilvikum þarf stjórn að meta samninga og grundvöll þeirra. Því er innsýn í helstu verðmatsaðferðir og lágmarks þekking á kostum og göllum mismunandi verðmatsaðferða nauðsynleg. 

Þá verður farið yfir skráningu félaga á verðbréfamarkað út frá ýmsum sjónarhornum. Áhersla er lögð á að margt í því ferli nýtist öllum fyrirtækjum. M.a. er fjallað um sveiflur á markaði og í efnahagsstærðum og þau áhrif sem það getur haft á ákvarðanatöku. Gefin verður innsýn í verðbréfamarkaðsrétt og reglur Kauphallar Íslands meðal annars með hliðsjón af upplýsingaskyldu. Gestafyrirlesari kemur inn í lotuna til þess að ræða raunhæft dæmi um skráningu félags á markað.

Leiðbeinandi: Almar Guðmundsson

Lota 5/8

Viðskiptasiðfræði og Samfélagsleg ábyrgð

Ákvarðanir stjórnenda í fyrirtækjum hafa áhrif á alla þá sem eiga samskipti við fyrirtækin og geta verið afar afdrifaríkar fyrir einstaklinga, önnur fyrirtæki og heilu samfélögin. Viðskipti og fyrirtæki eru hluti af samfélaginu og þeim þarf að stjórna af ábyrgð og í sátt við þá sem eiga hagsmuna að gæta, með gagnkvæman ávinning í huga.

Í félögum birtist siðferði annars vegar í viðhorfum, gildum, ákvörðum og athöfnum starfsfólks. Hins vegar birtist siðferði félagsins í stjórnkerfi þess og menningu: markmiðum, hlutverkum, verklagsreglum, siðareglum og gildum þess. Stjórn og framkvæmdastjóri geta haft mikil áhrif á siðferði félagsins með því að móta með markvissum hætti stjórnkerfi þess og menningu, og haft þannig áhrif á siðferði starfsfólks.

Í þessu námskeiði kynnast stjórnarmenn siðferðilegum álitamálum sem upp geta komið í störfum stjórna og hvernig fyrirtæki geta innleitt ábyrga starfshætti með alþjóðlega viðurkenndum aðferðum. Stuðst verður við raundæmi úr íslensku og alþjóðlegu viðskiptalífi.

Kennsluaðferðir

 • Stuttir fyrirlestrar
 • Hagnýt verkefni
 • Umræður

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Hafi kynnst helstu aðferðum viðskiptasiðfræði og samfélagslegrar ábyrgðar 
 • Hafi öðlast þjálfun í að greina siðferðileg álitaefni í störfum stjórna og félaga

Leiðbeinandi: Ketill Berg Magnússon

Lota 6/8

Lagaleg viðfangsefni stjórna

Í þessum hluta verður veitt yfirsýn yfir ábyrgð og skyldur stjórnarmanna. Kynnt verða helstu lög, reglugerðir og fyrirmyndir að skilvirku starfi stjórna:

 • Helstu réttarheimildir, þ.m.t. lög um hlutafélög og einkahlutafélög, samanburður á samþykktum félaga og hluthafasamningum.
 • Megineinkenni hlutafélaga og einkahlutafélaga, eðli takmarkaðrar ábyrgðar, samanburður við önnur félagaform.
 • Stjórnkerfi hlutafélaga og einkahlutafélaga, verkefni tengsl og valdsvið stjórnar, framkvæmdastjóra og hluthafa,reglur um hlutafélagasamstæður og álitaefni er varða stjórnunarheimildir móðurfélaga og mögulega ábyrgð þeirra.
 • Stjórnhættir hlutafélaga (e. Corporate Governance), viðfangsefni stjórna, straumar og stefnur, góðir stjórnarhættir.
 • Ábyrgð og skyldur stjórnarmanna, meðal annars með áherslu á reglur hlutafélagalaga um skyldur stjórnarmanna og viðskipti við tengda aðila, þ.á m. lánveitingar.
 • Möguleg skaðabóta- og refsiábyrgð stjórnarmanna.
 • Dómar um ábyrgð stjórnarmanna.
 • Samkeppnislög og samkeppnisreglur, skyldur og ábyrgð stjórnarmanna, viðurlög við samkeppnisbrotum. Hvað þýða bannákvæði samkeppnislaga í reynd, hvers konar háttsemi getur falið í sér brot á samkeppnislögum, þ.e.a.s. hvað ber að varast?
 • Hvaða ábyrgð bera stjórnarmenn í þessu sambandi?
 • Hvaða viðurlög geta legið við samkeppnislagabrotum, annars vegar fyrir fyrirtækið og hins vegar fyrir stjórnarmenn persónulega?
 • Hvaða leiðir geta verið færar ef fyrir liggur grunur um samkeppnislagabrot?
Leiðbeinandi: Magnús Hrafn Magnússon
Lota 7/8

Endurskoðun og áhættustýring

Öll fyrirtæki búa við áhættu í rekstri sínum sem bregðast má við með ýmsu móti. Í þessum hluta námskeiðsins er fjallað um áhættustýringu og innra og ytra eftirlit sem verðmætaskapandi þátt í rekstri fyrirtækja. Þarfir fyrirtækja eru mismunandi þegar kemur að áhættustýringu og innra eftirliti og veltur það á eðli og stærð fyrirtækjanna. 

Fjallað verður almennt um innra eftirlit og áhættustýringu og hlutverk stjórna í því samhengi, gerð verður grein fyrir hlutverki og ábyrgð endurskoðanda í tengslum við reikningsskil félaga og rætt um innri endurskoðun. 

Þá verður fjallað um skýrslur endurskoðenda og gerð stuttlega grein fyrir þeim stöðlum og reglum sem um gilda um endurskoðun.

Leiðbeinandi: Helga Harðardóttir

Lota 8/8

Verklag og teymisvinna - Stjórnin sem hópur

Í þessum hluta verður fjallað sérstaklega um hlutverk stjórnarformanns og aðra verkaskiptingu innan stjórnarinnar auk þess sem og hlutverk og ábyrgð framkvæmdastjóra gagnvart stjórn verður skoðuð.  

Ennfremur verður fjallað um val á stjórnarmönnum og samsetningu á þekkingu, reynslu og hæfni innan stjórnarteymisins.  Þá verður farið í lykilþætti árangursríkrar teymisvinnu, þar sem einkum er horft til uppbyggingar teymis, trausts, samvinnu, samloðunar, árangursríkra tjáskipta, ákvarðanatöku og ágreiningslausnar.  

Leitast er við að svara spurningunni hvað er virðisaukandi stjórn.

Leiðbeinandi: Þóranna Jónsdóttir

Að námi loknu

Nemendur fá staðfestingu á að hafa lokið námslínunni.

Hagnýtar upplýsingar

 • Innifalið í verði er bókin Handbók stjórnarmanna.
 • Þátttakendur fá léttar veitingar á kennsludögum.

Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn. Opni háskólinn hvetur þig til að kynna þér þína möguleika.

 • Vinsamlegast athugið að dagsetningar eru birtar með fyrirvara um að lágmarksþátttaka náist á námskeiðið.
 • Einnig gæti uppröðun lotanna tekið breytingum. 

 

Hér koma leiðbeinendur

 

Leiðbeinendur

Berglind Ósk Guðmundsdóttir

Lögfræðingur og ráðgjafi

Dr. Þóranna Jónsdóttir

Ráðgjafi á sviði breytingastjórnunar og stjórnarhátta

Dr. Þröstur Olaf Sigurjónsson

Dósent við viðskiptadeild HÍ. PhD

Almar Guðmundsson

Stundakennari

Helga Harðardóttir

Endurskoðandi hjá KPMG

Ketill Berg Magnússon

Mannauðsstjóri Marel á Íslandi

Magnús Hrafn Magnússon

Hæstaréttarlögmaður

Umsagnir

Ábyrgð og árangur stjórnarmanna

„Námið eflir mann í að taka sjálfstæðar ákvarðanir óháðar hagsmunum og í að vinna í öllum því sem kemur að stjórnarsetu. Það eykur skilning manns á því hvernig stjórnarmenn nálgast málefni sem eru kynnt fyrir þeim á stjórnarfundum. Námið veitir því góðan faglegan grunn og það er dregið vel fram hvert hlutverk, ábyrgð og skyldur stjórnarmanna eru.“

Bjarnólfur Lárusson, viðskiptastjóri á Fyrirtækja-og fjárfestasviði Íslandsbanka.


Fleiri námskeið

Ferla- og gæðastjórnun

 • Hefst:
 • Lengd: 28 klst.
 • Verð: 264.000
 • Lengri námskeið
 • |
 • Væntanlegt

Fjármál og rekstur fyrirtækja

 • Hefst: 2. mars 2022
 • Lengd: 28 klst
 • Verð: 274.000 kr.
 • Lengri námskeið
 • |
 • Skráning hafin